top of page
Search
  • maggasteina

Allt á uppleið

Það er allt á uppleið. Sólin, þegar hún sýnir sig, er á lofti allan sólarhringinn, blóm og tré á fullu að springa út. Jákvæðnin í samfélaginu eykst, það virðast allir og ömmur þeirra vera í útlöndum, eða nýkomnir heim eða alveg að fara út. Það hafa allir nóg að gera, alls staðar vinnu að fá. Eldsneytisverð og húsnæðisverð á fljúgandi siglingu upp á við líka og það er kannski ekki svo jákvætt.

En andrúmsloftið í samfélaginu er eitthvað svo magnað þessar vikurnar. Það er eins og við séum að skríða úr hýði og líta nýjan dag í fyrsta sinn í langan, langan tíma. Kannski verða sumir hálf hömlulausir í gleðinni á meðan aðrir láta nægja að brosa út í annað og fylgjast með. Við erum jú misjöfn.

Krafturinn sem náttúran og sólin færa okkur hér á norðurhjara yfir vor- og sumartímann, er svo magnaður. Maður vill helst ekki fara að sofa þegar sól er enn á lofti og svo sprettur maður upp á morgnana með sólargeislana í augunum, tilbúinn í nýjan dag. Þó það séu kannski ekki margar gráðurnar á hitamælinum vil ég svo miklu fremur hafa það þannig og geta klætt mig aðeins betur, heldur en að vera að kafna úr hita og svækju og þurfa að leita skjóls frá sólinni. Líkt og svo margir Evrópubúar þurfa þessa dagana.

Ég hallast að því að við séum eins og björninn og eigum að leggjast í hýði yfir veturinn, lágmarks afköst, lágmarks vökutími og rólegheit. Allavega finn ég eftir því sem árin færast yfir hvað ég vil draga saman seglin yfir veturinn, kúra inni og prjóna við kertaljós...og safna orku fyrir sumarið.

EN nú er sumar og sól hæst á lofti og ég ælta út!

Heyrumst síðar,

kærleikskveðja, Magga Steina54 views0 comments

Recent Posts

See All
Post: Blog2_Post
bottom of page