Þá er blessuð aðventan byrjuð með tilheyrandi verkefnum, andrúmslofti og
eftirvæntingu. Eða hvað? Ert þú að bíða eftir jólunum? Ert þú að bíða þess að Jesúbarnið fæðist og komi með kærleika, góðar óskir, von og fyrirheit um betri tíð? Kannski ertu bara að bíða eftir því að fá smá frí með fjölskyldunni og slaka á og borða góðan mat. Mögulega hlakkar þú ekkert til jólanna og bíður þess að næstu vikur fari hjá og þú getir haldið áfram með lífið.
Það eiga ekki allir góðar minningar um jólin. Sumir hafa lent í áföllum í kringum jól og minning þess fylgir þeim. Sumir sakna ástvina um jólin og sumir eru hreinlega einir / einmana um jólin. Það getur verið erfitt að finna ekki hinn sanna jólaanda og spenning þegar allt og allir, og amma þeirra, tala um jólin með blik í auga og láta eins og nú sé allt svo frábært. Við getum ekki gert ráð fyrir að öllum líði vel um jólin EN það þýðir ekki að við þurfum að láta okkur líða illa út af því.
Við getum sýnt fólki hluttekningu sem líður illa, við getum jafnvel gert heilmikið fyrir fólk til að létta því lífið í aðdraganda jóla og um hátíðirnar. Það er mikilvægt að elska suma aðeins meira á slæmu dögunum þeirra. Þú þarft ekki að kosta miklu til ef þú ert ekki aflögufær af peningum það er gulls ígildi að fá símtal eða heimsókn ef maður er einmana. Það er hægt að bjóðast til að gera fólki greiða eða koma því á óvart með skemmtilegri uppákomu.
Alltof oft vanmetum við töfra þess að brosa - snerta - segja falleg orð - hlusta - sýna umhyggju. Allt hefur þetta tilhneigingu til að snúa veröldinni á betri veg.
Ef þú ert svo heppin að finnast besti tími ársins loksins vera að renna upp óska ég þess að þú njótir komandi daga með hverjum þeim hætti sem nærir þig til sálar og líkama. Hlustaðu á hvað hjarta þitt segir. Ef hjarta þitt vill njóta skemmtunar, matar og gjafaflóðs þá láttu það eftir þér og njóttu þess. Ekki eyða tíma í eftirsjá og stress. Kannski vilt þú bara njóta kyrrðar og hafa gjafirnar einfaldar og fáar, þá er það allt í lagi líka.
Mig langar að minna þig á að hvernig sem þú hagar þínum jólaundirbúningi er gott hafa þakklæti í huga. Fallegasta leiðin til að byrja og enda daginn er með þakklæti. Við höfum fyrir svo margt að þakka: heilsuna, veðrið, húsaskjól, mat, vini, fjölskyldu, hreina náttúru og umhverfi. Ég er þakklát fyrir að þú gafst þér tíma til að lesa þennan pistil.
Gerðu þitt besta til að njóta lífsins, hvort sem þú hlakkar til jóla eða ekki,
með þakklátu hjarta.
Kærleikskveðja,
Magga Steina
Comentários