top of page
Search

Ertu meðvirk?

maggasteina

Hvernig getur maður vitað það? Mér finnst reyndar frekar auðvelt að sjá hvort aðrir séu meðvirkir en þegar að það kemur að sjálfri mér og samskiptum mínum við fjölskyldu og vini er þetta eins og með bjálkann og flísina....kannski bara "pínulítið" meðvirk

Ég hef í námi mínu og sjálfsgrufli lesið og lært ýmislegt um meðvirkni. Þar komst ég meðal annars að því að einkenni meðvirkni séu að það sé:


• erfitt að upplifa gott og heilbrigt sjálfsmat

• erfitt að setja heilbirgð mörk

• erfitt að tjá eigin veruleika

• erfitt að sinna eigin þörfum

• erfitt að koma fram á viðeigandi hátt


Afleiðingar af meðvirkni geta verið:

•Neikvæð stjórnun

•Gremja

•Skert andleg geta, brengluð eða engin andleg viðleitni

•Flótti frá raunveruleikanum, fíknir, andlegir og líkamlegir sjúkdómar

•Skert geta til að viðhalda nánd við annað fólk


Það segir sig sjálft að ef maður festist í þessu mynstri verða samskipti okkar erfið og orkufrek ef ekki beinlínis heilsuspillandi. Það er því gott að skoða hegðunarmynstur sitt með opinn huga og reyna að dæma sem minnst því með því móti verður okkur lítið ágengt.


Hvenær er ég að koma fram á viðeigandi hátt og hvenær eru mörkin mín heilbrigð og hver á að dæma það? Æ nú er ég kannski komin út í hártoganir. Þetta snýst auðvitað um það að maður geti átt heilbrigð og uppbyggileg samskipti við fólkið sitt og þá sérstaklega börnin sín. Það getur verið snúið að hafa alist upp með meðvirkum foreldrum, sem sjálfir ólust upp með meðvirkum foreldrum, o.s.frv. og ætla svo að reyna að gera eitthvað allt annað í uppeldi sinna eigin barna. Það fyrsta sem oftast er gripið til er það sem maður þekkir úr eigin uppeldi. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Að brjótast úr viðjum vanans og gera eitthvað annað en þú ert alin upp við að telja eðlilegt, getur bara tekið töluvert á og verið vont. En öll svona vinna þar sem við förum inn á við og skoðum okkar eigin viðhorf og gildi, gerir okkur gott og í flestum tilfellum að betri manneskjum. Ferlið að rjúfa vítahringinn er erfitt en árangurinn ánægjulegur, sérstaklega fyrir þá sem á eftir koma.

Við erum ekki fullkomin en við erum eins og við erum vegna þess sem við höfum upplifað og þeirra ákvarðana sem við höfum tekið í lífinu. Ef við viljum vera einhvern veginn öðruvísi er enginn sem getur breytt því nema við sjálf og ef við tökum ákvörðun um að gera það skulum við átta okkur á að það getur tekið á....en er fyllilega þess virði. Því niðurstaðan verður að þú þekkir sjálfa þig betur. Og hver vill ekki kynnast sinni bestu vinkonu/besta vini betur?

Ég hef gruflað og skoðað og pælt og lesið og komist að niðurstöðu. Svo ég kýs að segja um mig sjálfa: ég er meðvirk en í bata! Ein góð kona sagði við mig: "þú þarft að láta fólkið þitt vita af því að þú ætlir að breyta einhverju, annað er ósanngjarnt gagnvart þeim". Því hafði ég ekki velt fyrir mér en er samt svo skynsamlegt, þannig að fólk haldi ekki að maður hafi dottið á höfuðið eða verið numinn brott af geimverum!

Takmarkið er að ná þeim þroska að láta óvæntar uppákomur ekki koma mér úr jafnvægi, skilja leikreglur lífsins og bera hag annarra fyrir brjósti.

Ég óska þér alls hins besta á komandi dögum og vikum og vona að hækkandi sól vermi þig að utan sem innan.

Kærleikskveðja,

Magga Steina


 
 
 

Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page