Við Íslendingar höldum í heiðri gömlu tímatali þar sem sumarið byrjar snemma vors og lýkur ekki fyrr en í lok október, nánar tiltekið 23.október þetta árið. Þó haustverkin séu komin í fullan gang togar í mann einhver þráður frá sumrinu sem vill ekki sleppa. Það er jú ennþá sumar!
Fyrir marga er samt nauðsynlegt að komast í rútínu aftur eftir sumarfrí og ferðalög, heimsóknir og tilslakanir í mataræði og hreyfingu. Ég er ein af þeim. Mér finnst gott að finna mér rútínu og detta inn í hana, hafa hlutina í ákveðnum skorðum og vita að hverju ég geng. En svo koma sterk inn einkenni tvíburamerkisins sem ég er í, ég þarf að breyta til, ég skipti um skoðun, ég verð leið á rútínunni.
Þá þarf ég að finna eitthvert jafnvægi á milli reglunnar og óreglunnar svo mér líði vel. Það er hins vegar ekki alltaf auðvelt fyrir þá sem næst mér standa, sem vita ekki hvaðan á þá stendur veðrið þegar þetta dynur fyrirvaralaust yfir.
Þar sem ég hef verið starfandi grunnskólakennari meira og minna í 30 ár kom í mig gamalkunnur fiðringur í kringum skólabyrjun í ágúst sl. Mér fannst að ég ætti að vera að raða á kennaraborðið mitt, skoða nafnalista, gera stundatöflu og fylla á pennaveskið mitt. Það var í mér óeirð. Ég dreif mig út, bókstaflega til útlanda og heimsótti dætur mínar sem voru að byrja í námi og teygaði að mér skólabyrjun þeirra í stað minnar. Heyrði svo í syninum sem líka var að byrja í námi og yfirheyrði hann um þetta helsta sem þarf að ræða í skólabyrjun. Svo leið þetta hjá eins og gengur og lífið heldur áfram.
Þá var samt komið að því að koma daglegu lífi í rútínu og koma mér upp nýjum venjum Hreyfing og mataræði er eitthvað sem ég er stöðugt að endurskoða og breyta til með. Það er engin klisja, við þurfum og eigum að fara vel með þennan eina líkama sem við fáum í þessu lífi og rækta hann. Það er staðreynd að við lifum lengur en forfeður okkar gerðu, svo við fáum tækifæri til að njóta lífsins lengur og ef okkur auðnast að gera það og vera hraust fram eftir ævi eru lífsgæðin töluverð.
En við megum ekki gleyma að andleg heilsa er ekki síður mikilvæg. Þó við séum að borða allt hollt, hreyfa okkur passlega og vera í þjálfun en erum stútfull af kvíða eða depurð þá vantar okkur jafnvægi og við upplifum okkur ekki heil. Við þurfum að gefa okkur tíma til að hugleiða, biðja bænir, fara í slökun og draga djúpt andann reglulega.
Ræktum líkama, huga og sál, finnum jafnvægið okkar og munið að ykkar jafnvægi er ekki það sama og annarra í kringum ykkur. Þarfir okkar eru svo misjafnar.
Í friði og kærleika,
Magga Steina
takk fyrir þetta elskuleg og sólakveðja frá Spáni