top of page
Search
maggasteina

Heilög?

Þau eru komin, blessuð jólin. Biðin á enda, stressið að limpast niður, þ.e.a.s. úr þessu er lítið hægt að gera í því þó eitthvað hafi ekki verið tilbúið af öllu því sem hugurinn var upptekinn af á aðventunni. Búið að loka búðum svo það þýðir ekki að vera með bakþanka þó eitthvað vanti í einn pakkann. Ef það gleymdist að kaupa grænar baunir, verður bara jólamaturinn að komast af án þeirra.

Þá kemur þessi dásamlega stund, skúra gólfið, setja hreint á rúmið og fara í jólabaðið. Draga fram jólakjólinn....vonandi á ég heilar sokkabuxur...ef ekki verður að hafa það. Laga hárið, setja maskarann og lit á varirnar.

En nú er ég ekki að drífa mig í jólamessu, af því það er ekki boðið til kirkju í dag. Við göngum því "til kirkju" á okkar eigin heimili, sem verður á þessari stundu heilagt. Hvort sem við kveikjum á útvarpsmessunni eða ekki þá kemur þessi helgi jólanna yfir okkur og heimili okkar.

Úr því ég er ekki að fara í messu, þarf ég þá nokkuð að hafa mig til og fara í kjólinn? Er ekki bara best að fara í kósígallann og inniskóna og þá finn ég ekki fyrir ofátinu á mittismálinu? Það reyndar hentar mér ekki því mér finnst mikilvægt að þessi dagur sé sérstakur á allan hátt.

Með því að gera heimilið hreint og fínt og eins okkur sjálf erum við að bjóða helgi hátíðarinnar inn til okkar, í húsið, í hugann og í hjartað. Við segjum við hvert annað: "Gleðileg jól" og bak við þau orð er ósk okkar um að fólkið í kringum okkur upplifi eitthvað sérstakt, finni gleði og frið jólanna umvefja sig.

Einu sinni á ári kemur þetta tækifæri, að hugur flestra í kringum okkur er stilltur inn á það að eiga notalega og góða stund með okkar nánustu, við finnum þörf fyrir að gleðja hvert annað með samveru, gjöfum og góðum mat og einhvern veginn verðum við betri manneskjur og akkúrat þar held ég að helgin komi inn í dæmið. Það er í anda Jesú sem við minnumst á jólum að hugsa meira um aðra en sjálfan sig.

Ég óska þess að þú eigir dásamleg jól í friði og kærleika.

Magga Steina


93 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page