Gleðilegt ár gott fólk og takk fyrir samfylgdina á gamla árinu.
Áramótaskaupið var frábært, flestir sammála um það. Hvað gerir gott skaup að góðu skaupi? Ég held að það komi nokkrir þættir til en einn af þeim stærstu er að þegar það er mikill sannleikur í atriðinu, það er verið að gera grín að einhverju sem er í alvöru þannig en kannski er það aðeins ýkt, samt svo mikill sannleikur, þá er það fyndið. Við skiljum hvað er verið að meina, erum sammála hversu fáránlegt þetta atriði var í alvörunni og getum kinkað kolli og hlegið að öllu saman.
Við vorum líka að horfa á gömul skaup í kringum áramótin og eitt atriði fannst mér frábært sérstaklega þar sem það var svo sorglega mikill sannleikur í því.
Þetta var atriðið með kommentakerfi samfélagsmiðlanna. Þvílíkum óhróðri og skít kastað á fólk og málefni og hver og ein athugasemd skrifuð af svo mikilli þekkingu og innlifun að maður heldur að viðkomandi hafi hreinlega verið staddur þar sem atburðurinn átti sér stað.
EÐA HVAÐ? Veit fólk hvað það er að tala um þegar það skrifar komment eða athugasemd við einhverja færslu eða frétt? Miðað við sannfæringarkraftinn í yfirlýsingum fólks, er auðvelt að halda það.
Því miður held ég að það sé ekki reyndin. Svo sorglegt sem það er þá er til fólk sem hraunar algjörum óhróðri og viðbjóði yfir aðra sem það hreinlega þekkir ekki og veit engin deili á og það sem meira er oft held ég að fólk hafi ekki nokkurt vit á því sem það er að tjá sig um.
Við þurfum ekki alltaf að vera sammála um hlutina, almáttugur minn það væri nú ekki gaman, en við getum alveg unnt öðrum þess að vera á annarri skoðun en við. Það gæti kostað okkur slatta af umburðarlyndi og víðsýni að virða skoðanir annarra, en er algjörlega þess virði. Við höfum gott af því að heyra skoðanir annars fólks og sjá heiminn í stærra ljósi.
Hitt er svo annað mál að slæmir hlutir gerast og við höfum samúð með þeim sem lenda í vandræðum. Það er mannlegt og fallegt að sýna náunganum að við séum til staðar og viljum styðja og hjálpa. Það er ekki þar með sagt að við skiljum alla þætti málsins. Allir hlutir hafa a.m.k. tvær hliðar og það er okkur hollt að kynna okkur allavega fleiri en eina hlið þeirra til að geta tjáð okkur opinberlega um þá.
Ef ég mætti gefa þér eitt ráð inn í daginn þinn langar mig að segja: sýndu sjálfri þér og fólkinu í kringum þig mildi og passaðu að falla ekki í þá gryfju að dæma og fordæma án þess að vita staðreyndir mála. Dreifum jákvæðum fréttum og fallegri orku í kringum okkur. Gerum okkur far um að sjá björtu hliðarnar og ljósið í tilverunni.
Kærleikskveðja,
Magga Steina
Comments