top of page
Search
  • maggasteina

Að gefast upp

Updated: Oct 30, 2021


Hefur þér liðið eins og þú sért að gefast upp? Gefast upp á neikvæðri umræðu í samfélaginu? Gefast upp á aðhaldi í mataræði eða ræktinni? Gefast upp á hávaðanum í krökkunum? Gefast upp á mánaðarlegum reikningum? Eða svívirðilegu bensínverði? Covid-takmörkunum? Í þessum tilfellum erum við orðin þreytt á viðvarandi ástandi og viljum að því linni. Kannski finnst einhverjum þetta vera lítilvæg atriði til að gefast upp á og maður segir oft kæruleysislega: "ég er alveg að gefast upp" án þess að meina það fullkomlega. Tilfinningin er samt ekkert endilega góð og ef við látum það eftir okkur að gefast upp, t.d. á matarkúrnum, þá upplifum við okkur óttalega aula að geta ekki haldið þetta út og ef við gefumst upp á hávaðanum og hvessum okkur við krakkana sjáum við oft eftir því. Það er með öðrum orðum ekki góð tilfinning að gefast upp.

En hefur þér einhvern tímann liðið eins og þú sért að gefast upp á lífinu? Sérð ekki útúr augum fyrir kvíða, depurð, vonleysi. Ein í heiminum, vonlaus og einskis nýt. Öllum fyrir bestu og helst sjálfri þér, ef þú hreinlega hverfur af yfirborði jarðar.

Það er dauðans alvara að upplifa svo mikið vonleysi en því miður alltof algengt. Fólk vill hreinlega gefast upp fyrir því ástandi að vera til.

Við manneskjurnar erum eins og ísjakinn, aðeins brot af líðan okkar og tilfinningum sést á okkur og nær upp á yfirborðið. Við höfum ákveðinn "front" sem umheimurinn sér en megnið er undir niðri og sést ekki. Stundum hef ég rætt við krakka um líðan bekkjarfélaga þeirra, t.d. þegar upp hefur komið einelti eða stríðni. Þau segja kannski: "honum er alveg sama, hann hlær alltaf með okkur þegar við segjum þetta við hann". Einmitt, þau telja að þá sé allt í lagi ef viðkomandi brotnar ekki saman fyrir framan þau og fer að gráta!

Það sem sést og það sem við segjum, endurspeglar ekkert endilega hvernig okkur líður. Og það sama á við um fullorðna, jafnvel ennfrekar reyna þeir að harka af sér og halda andlitinu í erfiðum aðstæðum. Ekki að sýna veikleika og vonbrigði. Sýnast sterk.

Við skulum því temja okkur að umgangast fólk af virðingu, hvort sem við þekkjum það eða ekki. Það er engin leið fyrir okkur að vita hvernig fólki líður því við sjáum ekki undir yfirborðið.

"Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt". Það er svo mikill sannleikur í þessum orðum Einars Benediktssonar, það þarf oft ekki mikið til að létta lund og bæta líðan fólks í kringum okkur.

Sjálfsvíg hafa alla tíð fylgt mannkyninu og eru því miður oft sú eina leið sem fólk sér út úr vanlíðan og kvíða. Ef einhver segir þér að hún/hann sé að gefast upp á lífinu þá þarf strax að bregðast við og biðja um hjálp fagaðila til að grípa inní. Sjálfsvígum fylgir oft reiði, skömm og jafnvel léttir og allar þessar tilfinningar eiga rétt á sér. Þeir sem eftir standa þurfa mikinn stuðning og utanumhald. Það er svo ósköp dapurt að hugsa til þess að fólk sjái ekki tilgang með lífinu og vilji enda það. Sérstaklega þegar ungu fólki líður þannig og okkur hinum finnst þau eiga svo ótal möguleika í lífinu og von um bjarta framtíð.

Það er alltaf ástæða fyrir allri hegðun. Við dæmum fólk sem hagar sér eins og fífl en vitum í raun ekkert hvað viðkomandi hefur verið að ganga í gegnum.

Ég segi því aftur: VERUM GÓÐ HVERT VIÐ ANNAÐ! Brosum til fólksins í kringum okkur, réttum hjálparhönd, sýnum vinsemd. Við fáum það margfalt til baka.

Kærleikskveðja,

Magga Steina

81 views0 comments

Recent Posts

See All
Post: Blog2_Post
bottom of page