top of page
Search
  • maggasteina

Hvert ertu að fara?

Enn á ný er komin jólafasta. Þið þekkið þetta, tíminn flýgur sem aldrei fyrr eftir því sem maður eldist og árstíðirnar koma og fara eins og hendi sé veifað. Sem betur fer, segi ég, því þá er manni allavega ekki að leiðast á meðan. Eða allavega held ég að ef tíminn fer eitthvað að silast og virðist ekki ætla að líða þá sé orðið eitthvað lítið um að vera hjá mér. Mér líður best þegar það er nóg að snúast, eitthvað spennandi framundan og ég get verið að skipuleggja eitthvað og gera og græja. Svo er líka gott að setjast og láta líða úr sér og taka upp prjóna eða bók.

Annars er eins og frá mér hafi verið tekin einbeitingin þegar ég sest og ætla að lesa. Annað hvort fer hugurinn á flug út og suður eða ég hreinlega sofna við lesturinn. Mér finnst því algjör snilld að hlusta á sögur og geta prjónað eða brotið upp þvotti á meðan. Stundum meira að segja hlusta ég á sögur þegar ég er á ferðalagi eða úti að keyra.

Talandi um ferðalag. Mig langar að tala um ferðalagið sem við öll erum á, í gegnum lífið. Þau ferðalög eru svo óteljandi og misjöfn og þarfir okkar svo ólíkar. Stundum erum við á hraðferð, það gustar af okkur, við getum allt sem við ætlum okkur og lífið þýtur áfram. En stundum er eitthvað sem hægir á okkur og fær okkur til að hugsa um hvert við stefnum og hvernig við ætlum þangað.

Alltof oft held ég að við stöldrum ekki við til að skoða ferðalagið okkar nema að við séum hreinlega neydd til þess. Veikindi, missir, skilnaðir eða önnur áföll eru ansi harkalegar leiðir til að gíra okkur niður en þá neyðast margir til að horfast í augu við sjálfa sig og eigin breyskleika. Þegar við erum berskjölduð og varnarlaus verðum við líka heiðarlegri gagnvart okkur sjálfum og þeim sem í kringum okkur eru. Við getum ekki eins falið veikleika okkar og margir þurfa á þeirri stundu jafnvel í fyrsta sinn að biðja um aðstoð. Það getur reynst erfitt.

Þegar maður er á þessum stað er gott að sjá hversu langt maður hefur komist í lífinu, hversu miklu maður hefur áorkað í stað þess að einblína á hve langt er í land og hve ótrúlega erfitt það kann að verða að komast yfir áfallið eða að ná aftur heilsu.

Mér finnst gott að þakka fyrir allt sem mér hefur hlotnast, allt góða fólkið í kringum mig, fjölskylduna mína og heilsuna. Eg þakka fyrir lífið, fallega landið sem ég bý í og þau ótal tækifæri sem mér hafa boðist í lífinu. Það er ástæða fyrir því að ég er hér stödd, á þessum stað, hún er ekki alltaf augljós en stundum blasir hún við. Ég þarf að finna mína leið til að draumar mínir rætist og með mér í för er alltaf mér æðri máttur, sem veit hvað mér er fyrir bestu þó ég viti það ekki alltaf sjálf. En þegar ég man eftir því að treysta honum fyrir ferðalaginu með mér þá gengur allt mikið betur.

Ég vil óska þér gleðilegrar aðventu og vona að þú finnir frið og ljós innra með þér.


168 views0 comments

Recent Posts

See All
Post: Blog2_Post
bottom of page