top of page
Search
  • maggasteina

Ég er með covid!

Já veiran náði mér fyrir nokkrum vikum, eins og hinum tugum þúsunda Íslendinga sem hafa gert sitt besta í tvö ár til að forðast hana. Skrítið hvernig allt breytist þegar maður er búinn að fá veiruna, allt í einu þarf maður ekki að passa sig eins mikið á að smitast og smita aðra og maður upplifir eitthvað undarlegt frelsi.

Það er greinilegt að fólk hefur misjafna reynslu af veiruskömminni. Mín upplifun var sú að veikindi voru svo sem ekki mikil en alls konar skrýtin einkenni gerðu vart við sig og eftirköstin eru eins og oft hefur verið sagt um okkur sem erum í tvíburamerkinu: algjörlega óútreiknanleg. Fjallhress að morgni, orkulaus og með beinverki að kvöldi. Lystarleysi, ógleði, ofurmatarlyst eða óbragð í munni eru einkenni sem geta þess vegna öll gert vart við sig oftar en einu sinni á sama sólarhring.

En ég ætlaði nú ekki endilega að fjalla um reynslu mína af covid heldur meira þá upplifun að veikjast og hvernig maður speglar sig við samfélagið. Það þekkja allir covid, ef ekki af eigin reynslu þá af þúsundum reynslusagna fólks sem hefur veikst. Stemmingin er svipuð og þegar Suðurlandsskjálftarnir voru, allir höfðu sögu að segja, annað hvort af eigin reynslu eða einhverra sem þeir þekktu. Maður tilheyrir hópnum og flestir vita hvernig manni líður eða hvað maður hefur verið að ganga í gegnum.

Þegar ég greindist með krabbamein fyrir rúmum 6 árum var staðan önnur. Þó ég þekkti þó nokkra sem höfðu gengið í gegnum eitthvað svipað var upplifunin ólík, mín einkenni og aukaverkanir voru ekki endilega eins og þeirra sem ég ræddi við en með tímanum hefur samt komið í ljós í samtali við ótal marga krabbameinssjúklinga að það er ekkert nýtt undir sólinni. Samfélagið sýndi mikla hluttekningu og samúð og kærleika, sérstaklega meðan ég var sköllótt og "sýnilega veik". Svo óx hárið og hluttekningin minnkaði, "hva ertu ekki komin á fullt? Þú lítur svo vel út, ert´ekki bara hress?"

Þá velti ég því fyrir mér hvernig viðmót fólk með geðraskanir, þunglyndi eða kvíða fær í samfélaginu, þ.e. ef fólk hefur þann kjark að segja frá veikindum sínum. Ég veit að það er svo sannarlega ekki auðvelt og margir velja að tjá sig ekki um það, fela sjúkdóminn og reyna að halda andliti og haus gagnvart umheiminum. Ef ég veit að kona er í veikindaleyfi vegna þunglyndis, en svo hitti ég hana fjallhressa í leikhúsi, álykta ég ekki sem svo að hún hljóti að vera að hressast? Þegar ég get ekki sett mig í spor einstaklingsins, get ekki samsamað mig og "vitað" hvernig honum líður, á ég þá erfiðara með að sýna hluttekningu og viðurkenna að hann sé veikur? Það er pæling.

Kannski veit ég bara betur hvað er að fólki og hvernig það getur orðið betra. "Það er ekkert að þér, hristu þetta af þér, farðu út að ganga, taktu d-vítamín og vertu hress".

Sýnum hvert öðru umburðarlyndi, kærleika og þolinmæði. Við getum ekki með nokkru móti vitað hvernig öðrum líður, þó svo við höfum sömu eða svipaða reynslu að ég tali ekki um þegar svo er ekki.

Kærleikur og mildi, anda rólega inn og aftur út, brosa framan í heiminn, ef þú treystir þér til. Einn dag í einu, það er allt sem við vitum að við höfum. Annað er bónus.

Kærleikskveðja,

Magga Steina


166 views0 comments

Recent Posts

See All
Post: Blog2_Post
bottom of page