top of page
Search
  • maggasteina

Fjallganga

Ég fór í fjallgöngu um helgina. Það tók alveg á og ég blés og dæsti nánast í hverju skrefi.

Það var hálka á köflum svo ég hafði sett fjallajárnin undir skóna til að lágmarka líkamstjón í ræktinni minni.

Skyggni var afar lítið enda var nánast stöðugur éljagangur og á köflum þreifandi bylur í fangið en svo dúraði á milli. Þess vegna hafði ég sett upp skíðagleraugu til að auðvelda mér að sjá hvar ég ætti að stíga niður fæti og færi mér síður að voða. Auk þess var ég auðvitað dúðuð í öll góðu ullarfötin mín innan undir úlpu og snjóbuxum.

Ég var einnig með hugann við það að fylgjast með klettabeltum og snjóhengjum, því varúðartilkynningar um hugsanleg snjóflóð höfðu greypst í huga mér undanfarna daga.

Svo var það brattinn, ég er ekki góð í bratta. Reglulega varð ég að stoppa, snúa mér undan vindi og kasta mæðinni, telja í mig kjark, horfa upp og sjá að alltaf styttist í toppinn. Sennilega myndi ég lifa þetta af.....skref fyrir skref þokaðist ég nær takmarkinu.

Á toppnum var ég auðvitað afar montin með mig og kát að hafa sigrast á öllum þessum hindrunum, nú var bara að koma sér í heilu lagi aftur niður í bíl, það var jú undan bratta og vindi að fara en vissara að fara varlega og áfram óð ég snjó upp í kálfa inn á milli svellbunka.

Mér varð hugsað til þess hvað það er mikill munur að fara í fjallgöngu að sumri í sól og blíðu, þegar gras, blóm og tré eru í fullum skrúða. Þegar útsýni er til allra átta og sólin baðar fjall og fjörð.

Þá datt mér í hug að þetta er svipað og lífið sjálft. Suma daga er sól og allt gengur upp. Lífið blasir við í allri sinni dýrð. Maður er þakklátur fyrir að vera hraustur, geta gert nánast það sem mann langar til, þakklátur fyrir fjölskyldu og vini, fallega náttúru og frjálsræði á landinu okkar góða. Svo aðra daga þarf maður að taka á því, heilsan bilar, vinir eða fjölskyldumeðlimir hverfa. Hinir ýmsu erfiðleikar banka uppá og maður þarf aftur og aftur að stoppa, snúa sér undan éljunum og draga andann. Vona að maður komist á toppinn án þess að verða fyrir stórum áföllum.

Þegar maður kemur svo aftur niður í bíl, rjóður í kinnum, búinn að takast á við náttúruöflin, færðina og eigin líkamsgetu (eða veikindi, missi eða áföll) verður maður auðmjúkur, þakklátur og sáttur með eigin getu og þau tækifæri sem bjóðast í lífinu.

Og ég er fegin að hafa tekist á við lífið með öllum sínum áskorunum, það gerir mig að þeirri manneskju sem ég er í dag.

Kærleikskveðja,

Magga Steina


62 views0 comments

Recent Posts

See All
Post: Blog2_Post
bottom of page