
Það er ekki hægt að sjá hina dásamlegu seiðandi birtu frá stjörnunum nema í myrkri. Aðeins í gegnum myrkrið tekst okkur að eygja birtuna.
Stundum óttumst við framtíðina, það sem er óþekkt. Það veldur óöryggi að þekkja ekki hvað er framundan, geta ekki skipulagt sig, verið viðbúin, sett sig í stellingar og tekist á við lífið með öllum sínum fjölbreytileika. Við sjáum ekki alltaf ljósið, göngum í myrkri og þreifum fyrir okkur og förum jafnvel að ímynda okkur hið versta.
Þá þurfum við að treysta, treysta Guði, alheiminum, englunum, verndarvættunum okkar eða hvað það er sem við trúum á, við þurfum að treysta því að þau sýni okkur ljósið við endann á göngunum. Við erum alltaf á réttri leið, jafnvel þegar við höldum að við höfum villst af leið, þetta er leiðin okkar, leiðin sem okkur er ætlað að fara og við þurfum að treysta því að svo sé og að okkur sé leiðbeint að ljósinu.
Og þegar augu okkar opnast og við erum komin út í birtuna sjáum við að þetta var auðvitað leiðin sem við þurftum að fara í átt að ljósinu. En það er ekki alltaf augljóst á meðan við dveljum í myrkri.
Svo er annað, hin mesta orkueyðsla og tímasóun er fólgin í áhyggjum. Oftast höfum við áhyggjur af hlutum sem aldrei eiga eftir að gerast og þau fáu prósent af hlutum sem við höfum áhyggjur af og gerast svo í raun og veru eru oftast ekki nærri eins hræðileg og við héldum svo í raun voru áhyggjurnar ekkert annað en tímasóun og vanlíðan til einskis.
Málið er nefnilega þetta: mættu vandamálum dagsins með þeim styrk sem þú býrð yfir í dag. Ekki reyna að byrja að takast á við vandamál morgundagins fyrr en á morgun. Þú hefur ekki ennþá styrk morgundagsins. Þú hefur einfaldlega nóg með daginn í dag.
Kærleikskveðja,
Magga Steina
コメント